mánudagur, október 15, 2007

 

Heimasíða FÁT

Félag áhugamanna um tréskurð er með heimasíðu listalind.is/treskurdur.

mánudagur, apríl 09, 2007

 

Drekaform


Drekaformið tengist víkingatíðinni, en þá komu drekar og/eða drekahöfuð oft fyrir í verkum manna. Formgerð þessa má með nokkurri vissu rekja til Noregs.

Í fornmunum er fundust í Oseberg í Noregi kemur fram mynstur dýramynda sem ekki eru af okkar heimi. Þetta eru drekar með haus, háls, búk eða bol og útlimi. Drekaformi þessu er fléttað saman til að fylla upp í ákveðið rými. Erfitt getur reynst að fylgja eftir hvað tengist hvaða dreka því allt fléttast saman, undir og yfir af miklum hagleik.

Frá þessum tíma koma einnig fyrir form mannslíkama en úrvinnsla þeirra forma sýnir að teiknigetan hefur verið lítil, þ.e. hlutföll líkamans eru barnsleg (naiv).

mánudagur, mars 05, 2007

 

Stokkur eftir Hjálmar í Bólu


"40. SMÁSTOKKUR í eigu Jónu Ámundadóttur í Hafnarfirði, úr beyki,1. 12,3, hæð með loki 6, br. 5 sm, negldur látúnsnöglum. Lokið með einfaldri tappalæsingu. Annars vegar við tappana er á lokinu afmarkaður reitur með a n n o, smáir höfðaletursstafir, og 1 8 3 3, rist með venjulegum tölustöfum. Hinum megin við tappana er krákustigalína og tigull greyptur í hvern krók. Á hliðum og göflum er stórgert höfðaletur: j e g a / s t / ocki / m, þ.e. Ég á stokkinn m(eð réttu). Fyrsti stafurinn er sérkennilegur og ég held að hann hljóti að vera tilraun til að gera upphafs-i eð j. Ofan og neðan við letrið er röð af tiglum eins og á lokinu og er hver tigull eiginlega gerður af tveimur innskornum þríhyrningum með hafti á milli. Letrið er mjög líkt letri Hjálmars, því sem er á kistlum af Nordalsgerð og fleiri hlutum. Yfirleitt er svo margt sameiginlegt með stokknum og þeim sem taldir eru hér á undan að einsýnt virðist að eigna þá alla sama manni.
Eigandi stokksins er ættaður úr Austur-Húnavatnssýslu og þaðan er stokkurinn kominn en saga hans að öðru leyti ókunn."
(Hagleiksverk Hjálmars í Bólu eftir Kristján Eldjárn, 1975, bls. 85-86)

miðvikudagur, febrúar 07, 2007

 

Akantus

Frá dögum Grikkja um 500 árum fyrir Kristburð eru fyrstu merki um notkun á akantus-blaðmynstri. Í gegnum aldirnar hefur form þetta tekið breytingum og þróast vegna áhrifa frá ýmsum stíltegundum og tískusveiflum.

Upphafið er rakið allt aftur til Hellas hins forna og þá einkum í tenglsum við legsteina og lekhytos-smyrslkerja sem lögð voru með í grafir fyrirfólks. Akantus er þyrnirunni og líklega má tengja notkun hans við þá þjóðtrú, sem finna má t.d. á Indlandi, að setja þyrna á grafir og koma þannig í veg fyrir að hinir dauðu gangi aftur. Gömul þjóðsaga sem hér er endursögð, gæti stutt þessa tenginu:

Gömul kona frá Korintu lagði körfu með ýmsum hlutum við gröf ungrar stúlku. Körfuna hafði hún sett ofaná akantusrót. Vorið eftir óx jurtin og vafði blöðum sínum um körfuna. Kallimachos listamaður tók eftir þessu og hreifst af fegurð blaðanna og samspili þeirra við körufna. Hann nýtti sér síðan þetta form við mótun súlna fyrir konungsmenn.

Þessi gríska útfærsla náði miklum vinsældum víða um heim. Þar áttu, ekki hvað síst, Rómverjar sinn þátt í útbreiðslu formsins enda þróuðu þeir eigið afbrigði, þ.e. þeir breyttu því eftir eigin höfði. Eitt af því sem þeir gerðu var að gera akantusinn blaðmeiri og láta stöngulinn nánast hverfa. Þegar fram liðu stundir varð rómverski akantusinn frekar ákveðið form en laufblað.

Til Norðurlanda hefur þessi gerð skreytinga trúlega borist með kristnitöku og talið er að það hafi náð hámarki í kringum árið 1700. þetta er sennilega skýringin á því að skurðmeistarar á Norðurlöndum sóttu frekar í rómverska afbrigðið en það gríska, þ.e. vegna tengingar við kristna trú.
(Texti úr handritsdrögum er nefnast Handbók um tréskurð)

föstudagur, desember 22, 2006

 

Stofndagur FÁT

Samkvæmt upplýsingum í Brýninu,fyrsta tölublaði fréttabréfins, í apríl 1996 var stofnfundur FÁT 2. mars 1996. Yfir 90 félagar gengu í félagið á stofnfundinum og þegar fréttabréfið er gefið út eru þeir að nálgast 200. Fyrsti formaður félagsins var Evert Kr. Evertsson. Meðstjórnendur: Jón Adolf Steinólfsson, Stefán H. Erlingsson, Vilhjálmur Siggeirsson og Sveinbjörn Kristjánsson.

föstudagur, október 06, 2006

 

FleygskurðurFleygskurður á rætur sínar að rekja allt aftur til miðalda. Formið er reglubundið, þ.e. með endurtekningum. Formið er gjarnan teiknað með reglustiku og sirkli. Þó eru til undantekningar á þessu eins og flestu öðru. Fleygskurður er oft notaður sem skraut til uppfyllingar (dekorativ).

Fleygskurð er hægt að flokka sem alþjóðlega tréskurðaraðferð. Erlendis eru notuð eftirfarandi nöfn yfir fleygskurð: chip, karveskurd, kerbschnitzen og fl.

Myndin hér til vinstri er af laufabrauðspressu. Þvermál er um 20 sm. Hnúður er í miðjunni sem festur er með því að reka fleyg upp í miðjan hnúðinn þar sem hann kemur út um bakhlið. Pressa þessi kemur að notum þegar laufabrauð er steikt. Laufabrauðið kemur nokkuð óslétt úr steikarpottinum og er pressan notuð til að slétta það til áður en brauðið kólnar.


 

Lind

Lind vex í flestum löndum Evrópu og er mjúkur, ljós viður með gulleitum og þéttum trefjum. Lindin er einnig þekkt undir erlendum nöfnunum Lime, Limewood, Basswood eða Bee-tree. Lind er mjög vinsæll viður til tréskurðar og gefur fínlegan skurð. Viðurinn varð mjög vinsæll um og upp úr 16. öld meðal annars vegna verka Bretans Grinlings Gibbons. Lind er viðkvæmt efni, þ.e. hún veðrast auðveldlega og jafnvel innandyra getur ljós dekkt viðinn. Hún er ekki sérstaklega góð til litunar.

Lind frá Ameríku er til í mörgum litaafbrigðum sem og trefjalögun. Rjómalituð lind sem vex í norðurhluta Ameríku hentar hvað best til tréskurðar.

 

List eða handverk

Það rifjast upp þegar fjalla á um hvað list er, að einhver mæt manneskja hafi gefið þá skýringu að list sé að gera vel.

List ætti þó að vera meira en að gera vel, einnig ætti að vera þáttur sem fæli í sér að gefa af sjálfum sér. Það er ekki nóg að hafa gott handbragð ef unnið er við hreina eftiröpun (copy). Það spila fleiri þættir inn í eins og myndbygging o.s.frv.

Sú var tíðin að hugtakið list var ekki til því allt sem gert var, var handverk þar sem hugur og hönd sameinaðist.

Ákveðnar listgreinar hafa, í gegnum tíðina, átt undir högg að sækja eins og leirlist og tréskurður. Ef til vill er það vegna þess að þessar greinar hafa verið of nátengdar framleiðslu nytjahluta eins og leirskála og húsgagna.

"Ég les í þýsku skrifi að tréskurðarlist og hannyrðir einsog tíðkuðust hjá okkur séu bauernkunst, sveitamannalist. Það má rétt vera. Það hlýtur líka að vera auðvelt að sanna að öll list sé sveitamannalist, af því list er unnin í höndunum.
Ein höfuðlist íslendínga um aldir var að skera bæði í bein og horn, og þó einkum og sérílagi í tré. Fyrir utan ílátasmíð og áhalda varð hér innlixa sérstök skrautlist í tréskurði, flúrstíll, þar sem viðarteinúngur, einkum vínviðargreinin, var mikið höfuðmótíf, og var kallaður rómanskur stíll ytra, meðan hann var og hét; og ekki má gleyma að telja hina hámentuðu séríslensku stílfærslu á gotneska stafrófinu, sem beitt var við tré og kölluð höfðaletur." (Handverk, upphaf og endir listar, Tímaritið Hugur og Hönd, 1974, bls. 4-6, Halldór Laxnes).

Og niðurstaðan, hver er hún? Það er niðurstaða þess er þetta ritar að list sé afstætt hugtak og í raun list það sem hverjum og einum finnst vera list. Ef unnið er vel, persónulegur metnaður lagður í verkið sem og persónuleg útfærsla, þá er það list.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?