miðvikudagur, febrúar 07, 2007

 

Akantus

Frá dögum Grikkja um 500 árum fyrir Kristburð eru fyrstu merki um notkun á akantus-blaðmynstri. Í gegnum aldirnar hefur form þetta tekið breytingum og þróast vegna áhrifa frá ýmsum stíltegundum og tískusveiflum.

Upphafið er rakið allt aftur til Hellas hins forna og þá einkum í tenglsum við legsteina og lekhytos-smyrslkerja sem lögð voru með í grafir fyrirfólks. Akantus er þyrnirunni og líklega má tengja notkun hans við þá þjóðtrú, sem finna má t.d. á Indlandi, að setja þyrna á grafir og koma þannig í veg fyrir að hinir dauðu gangi aftur. Gömul þjóðsaga sem hér er endursögð, gæti stutt þessa tenginu:

Gömul kona frá Korintu lagði körfu með ýmsum hlutum við gröf ungrar stúlku. Körfuna hafði hún sett ofaná akantusrót. Vorið eftir óx jurtin og vafði blöðum sínum um körfuna. Kallimachos listamaður tók eftir þessu og hreifst af fegurð blaðanna og samspili þeirra við körufna. Hann nýtti sér síðan þetta form við mótun súlna fyrir konungsmenn.

Þessi gríska útfærsla náði miklum vinsældum víða um heim. Þar áttu, ekki hvað síst, Rómverjar sinn þátt í útbreiðslu formsins enda þróuðu þeir eigið afbrigði, þ.e. þeir breyttu því eftir eigin höfði. Eitt af því sem þeir gerðu var að gera akantusinn blaðmeiri og láta stöngulinn nánast hverfa. Þegar fram liðu stundir varð rómverski akantusinn frekar ákveðið form en laufblað.

Til Norðurlanda hefur þessi gerð skreytinga trúlega borist með kristnitöku og talið er að það hafi náð hámarki í kringum árið 1700. þetta er sennilega skýringin á því að skurðmeistarar á Norðurlöndum sóttu frekar í rómverska afbrigðið en það gríska, þ.e. vegna tengingar við kristna trú.
(Texti úr handritsdrögum er nefnast Handbók um tréskurð)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?