föstudagur, október 06, 2006

 

FleygskurðurFleygskurður á rætur sínar að rekja allt aftur til miðalda. Formið er reglubundið, þ.e. með endurtekningum. Formið er gjarnan teiknað með reglustiku og sirkli. Þó eru til undantekningar á þessu eins og flestu öðru. Fleygskurður er oft notaður sem skraut til uppfyllingar (dekorativ).

Fleygskurð er hægt að flokka sem alþjóðlega tréskurðaraðferð. Erlendis eru notuð eftirfarandi nöfn yfir fleygskurð: chip, karveskurd, kerbschnitzen og fl.

Myndin hér til vinstri er af laufabrauðspressu. Þvermál er um 20 sm. Hnúður er í miðjunni sem festur er með því að reka fleyg upp í miðjan hnúðinn þar sem hann kemur út um bakhlið. Pressa þessi kemur að notum þegar laufabrauð er steikt. Laufabrauðið kemur nokkuð óslétt úr steikarpottinum og er pressan notuð til að slétta það til áður en brauðið kólnar.


 

Lind

Lind vex í flestum löndum Evrópu og er mjúkur, ljós viður með gulleitum og þéttum trefjum. Lindin er einnig þekkt undir erlendum nöfnunum Lime, Limewood, Basswood eða Bee-tree. Lind er mjög vinsæll viður til tréskurðar og gefur fínlegan skurð. Viðurinn varð mjög vinsæll um og upp úr 16. öld meðal annars vegna verka Bretans Grinlings Gibbons. Lind er viðkvæmt efni, þ.e. hún veðrast auðveldlega og jafnvel innandyra getur ljós dekkt viðinn. Hún er ekki sérstaklega góð til litunar.

Lind frá Ameríku er til í mörgum litaafbrigðum sem og trefjalögun. Rjómalituð lind sem vex í norðurhluta Ameríku hentar hvað best til tréskurðar.

 

List eða handverk

Það rifjast upp þegar fjalla á um hvað list er, að einhver mæt manneskja hafi gefið þá skýringu að list sé að gera vel.

List ætti þó að vera meira en að gera vel, einnig ætti að vera þáttur sem fæli í sér að gefa af sjálfum sér. Það er ekki nóg að hafa gott handbragð ef unnið er við hreina eftiröpun (copy). Það spila fleiri þættir inn í eins og myndbygging o.s.frv.

Sú var tíðin að hugtakið list var ekki til því allt sem gert var, var handverk þar sem hugur og hönd sameinaðist.

Ákveðnar listgreinar hafa, í gegnum tíðina, átt undir högg að sækja eins og leirlist og tréskurður. Ef til vill er það vegna þess að þessar greinar hafa verið of nátengdar framleiðslu nytjahluta eins og leirskála og húsgagna.

"Ég les í þýsku skrifi að tréskurðarlist og hannyrðir einsog tíðkuðust hjá okkur séu bauernkunst, sveitamannalist. Það má rétt vera. Það hlýtur líka að vera auðvelt að sanna að öll list sé sveitamannalist, af því list er unnin í höndunum.
Ein höfuðlist íslendínga um aldir var að skera bæði í bein og horn, og þó einkum og sérílagi í tré. Fyrir utan ílátasmíð og áhalda varð hér innlixa sérstök skrautlist í tréskurði, flúrstíll, þar sem viðarteinúngur, einkum vínviðargreinin, var mikið höfuðmótíf, og var kallaður rómanskur stíll ytra, meðan hann var og hét; og ekki má gleyma að telja hina hámentuðu séríslensku stílfærslu á gotneska stafrófinu, sem beitt var við tré og kölluð höfðaletur." (Handverk, upphaf og endir listar, Tímaritið Hugur og Hönd, 1974, bls. 4-6, Halldór Laxnes).

Og niðurstaðan, hver er hún? Það er niðurstaða þess er þetta ritar að list sé afstætt hugtak og í raun list það sem hverjum og einum finnst vera list. Ef unnið er vel, persónulegur metnaður lagður í verkið sem og persónuleg útfærsla, þá er það list.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?